Thursday, November 28, 2002

Sæl öll sömul. Dóttur sonur minn hann Hreggviður kom hérna við áðan í spjall. Hann sagði mér frá þessum svokölluðu "leitarvélum" og kenndi mér líka að gera svona klekki. Ég var að kvarta yfir því við hann að ég fyndi bara alls ekki neitt á þessu blessaða alneti. Hann sagði mér þá að til væru "leitarvélar" og það eina sem þarf að gera er að slá inn textann í til þess gerð box og svo fengi maður mýgrút af niðurstöðum. En það er nú eins og losa Skrattann úr nótinni að rýna í þessar niðurstöður. Ég sló inn Bingó og þar kom svo mikill aragrúi af upplýsingum sem ég áttaði mig alls kostar ekki á. Mér er það því enn hulin ráðgáta hvernig fólk getur kallað þetta upplýsingahraðbraut. Ég finn bara alls ekki neitt. Smelltu hér til að komast á leitarvél. Vona að klekkurinn virki.

Wednesday, November 27, 2002

Nú fyrst að ég var að minnast á þorskastríðið dettur mér margar sögur í hug frá sjómennsku minni. Sérstaklega ein sem gerðist í 12 mílna átökunum 1958-61. Á þessum tíma var ég ekki mikið að sækja sjóinn því ég lenti í því óhappi að rifbeinsbrotna þegar ég kastaðist til eitt skiptið og lenti á rekkverkinu þegar brotsjór skall á skipinu, heppinn reyndar að fara ekki út yfir borðstokkinn, greinilegt að Hann vakir yfir manni stundum. Við höfðum ekki fyrr látið úr höfn en gefa tók á bátinn. Brotsjór og brim gekk yfir mannskapinn en við lögðum þó ekki árar í bát heldur köstuðum sæbarinni síldarnótinni út. Versnaði þá sjólag til muna og óhætt er að segja að gengið hafi á með hafrót og hríðarbyl þegar við reyndum að draga nótina aftur inn og skók það skipið mjög. Enn átti þó veður eftir að versna. Áður en yfir lauk gekk beljandi brotsjór yfir dallinn og svo mikið var frostið að brotið fraus á leiðinni yfir borðstokkinn og tók með sér bæði stýrishúsið og kapteininn. Náðum við honum þó aftur inn við illan leik en var hann ákaflega móður og var það þá sem ég rifbeinsbrotnaði. Þannig fór um sjóferð þá. Það var víst ekki þessi saga sem ég ætlaði að segja frá en ég man ekki hvaða sögu ég hafði í huga en ég er viss um að hún hafi verið mun skemmtilegri.

Tuesday, November 26, 2002

Ég fór í Landsbankann áðan og hef bara ekki kynnst öðrum eins hasar síðan í þorskastríðinu. Gjaldkerinn vildi ekki afgreiða mig af því að ég var ekki með skilríki, frekjan og yfirgangurinn í þessu unga liði nú til dags.
Hvaða, hvaða ekki var þessi mynd að koma. Jæja ég fæ einhvern til að kíkja á þetta þegar krakkarnir koma í sunnudagskaffið
-Hérna er mynd af mér og fjölskyldunni Hún var tekin uppí sumarbústað seinasta sumar. Stelpurnar mínar þrjár Guðrún, Þorgerður, Dagbjört og synirnir tveir Ómar og Guðmundur og barnabörnin sem er of mörg til að nefna.
Jæja ungmenni. Þá er maður kominn með svona blogg síðu.
Ég fekk tölvu frá barnabarninu og það hjálpaði mér við að koma upp þessari síðu og núna mun ég skrifa um alla þá spennandi hluti sem gamall maður í Breiðholti upplifir