Monday, January 13, 2003

Tölvan mín bilaði núna rétt fyrir áramót. Fékk víst vírus. Ég skil nú ekki hvað gerðist en Hregga tókst að laga þetta og núna er hún komin aftur blessunin. Árið byrjaði nú bara rólega og var maður nú ekki mikið að stressa sig svona fyrstu dagana en fljót tók hið venjubundna líf aftur við. Maður er enn saddur eftir allan jólamatinn og þarf maður ekkert að borða fyrir en á þeim næstu. Ég var spurður af vini barnabarns míns hvernig fisknum mínum braggaðist, sá sem ég endurlífgaði, ég gat nú glaður sagt að hann hefur það bara gott og er enn á lífi.

Wednesday, January 08, 2003

Árni Jón ritar í gestabók mína að ég sé að þykjast að vera sá sem ég er og er í raun verkfræði nörd eins og hann orðar það.

Komi þeir sem koma vilja
Trúi þeir sem trúa vilja
Fari þeir sem fara vilja og
mér og mínum að meinalausu.

Monday, December 23, 2002

Rosalega hlakkar mig til að borða skötu í kvöld. Skötuveirsla hjá Þorgerði og þar mun ég einnig vera um jólin. Ég hlóg nú dátt þegar ég sá svipinn á börnunum þegar ég sagði með alvarlegum svip vilja línuskauta í jólagjöf, þetta var nú bara smá glens hjá mér.
Ég vill óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vonandi verða hátíðirnar ánægjulegar og þar sem ég veit nú ekki hversu duglegur maður verður að skrifa hingað þá óska ég ykkur farsældar á nýja árinu og megi Guð og hans englar vaka yfir ykkur.

Thursday, December 19, 2002

Flestir halda að eldra fólk hefur ekkert að gera og situr bara og hlustar Gufuna allan daginn. En ég get nú aldeilis vottað fyrir það að nóg er að gerast hjá okkur. Reyndar það mikið að ég hef varla tíma til að rita þessi orð en mig langaði að koma á þakklæti til þeirra sem þegar hafa skráð sig í gestabók mína. Aldeilis var það nú ánægjulegt og megi Guð blessa ykkur börnin mín. En ég vildi segja frá ansi merkilegu sem mér tókst að gera í dag. Í morgun sá ég mér til skelfingar að einn gullfiska minna hafði hoppað úr kúlunni og lá þornaður, og að því virtist dauður, í gluggakistunni. Mér þótti og þykir mjög vænt um þenna fisk og mér datt í hug hvort að ég gæti ekki veitt honum fyrstu hjálp rétt eins og hægt er með menn. Ég tók hann upp og setti munn hans við vatnútblásturinn og þrýsti varlega á tálknin með sekúndu milli bili. Ég gafst upp og sleppti honum og var að horfa á hann fljótandi þegar allt í einu kom smá hreyfing fram í honum, fyrst hélt ég að þetta væru bara dauðakippir en ákvað að prófa hjálpina aftur. Ég endurtók leikinn og viti menn, hann fór að gleypa inn vatnið. Ég veit nú ekki hversu lengi hann mun þrauka þetta. Hálf lemstraður en ég hef verið að fylgjast með honum í dag og hann virðist bara hafa það gott.

Sunday, December 15, 2002

Þá er maður kominn aftur heim, á þriðja í aðventu. Var í uppskurði á mjöðminni. Þess vegna hef ég ekkert verið að skrifa. Fyrst gat ég það reyndar ekki vegna verkja en ég er nú ekki maður í það að skríða vælandi á næsta sjúkrahús þótt maður finnur smá til. Svo píndu krakkarnir mig til að fara og láta líta á þetta, satt að segja var meiri píningur af þeim heldur en mjöðminni sjálfri. Ég hrasaði nefnilega í bílskúrnum í byrjun desember. Var upp í stiga að ganga frá þegar ekki vildi betur til en þetta. Var reyndar heppinn að hrasa til hægri því mér á vinstri hönd voru logsuðukútar og ekki hefði nú verið þægilegt að lenda á þeim.

Einnig er nú komin svo kölluð gestabók. Þetta gerði barnabarnið fyrir mig, klár er hann strákurinn. Það væri því skemmtilegt að fá nöfn og athugasemdir þeirra sem lesa þessa síðu.
Virkar gestabókin? - Já hún virkar

Sunday, December 01, 2002

Ég var að horfa á Gísla Martein í gær. Hann er alltaf jafn skemmtilegur og ekki skemmdi fyrir að hann var að tala við Loga Bergmann. Ekki skil ég afhverju Gísli var ekki valinn sjónvarpsmaður ársins á Eddu verðlaununum. Einnig var þarna önnur manneskja Betarokk en við eigum einmitt það sameiginlegt að blogga bæði og á ég til að lesa hennar blogg af og til en ekki get ég nú sagt að ég sé voða hrifinn af því sem hún hefur frá að segja en skil vel að það höfði til yngri lesenda en mig. Kannski ég óski lesendum mínum gleðilegrar aðventu. Ég var boðinn í piparkökuveislu hjá Gerði dóttur minni, annsi voru þær nú góðar svona nýbakaðar. Fekk ég auðvitað allmargar til að taka heim. Þetta gera þær allar systurnar. Gefa manni fleiri, fleiri box af smákökum hverr jól og ekki get ég sagt að ég geti nú torgað öllu þessu einn svo þetta fer nú flest í frystinn og svo éta þær þetta sjálfar þegar þær koma í heimsókn.

Thursday, November 28, 2002

Sæl öll sömul. Dóttur sonur minn hann Hreggviður kom hérna við áðan í spjall. Hann sagði mér frá þessum svokölluðu "leitarvélum" og kenndi mér líka að gera svona klekki. Ég var að kvarta yfir því við hann að ég fyndi bara alls ekki neitt á þessu blessaða alneti. Hann sagði mér þá að til væru "leitarvélar" og það eina sem þarf að gera er að slá inn textann í til þess gerð box og svo fengi maður mýgrút af niðurstöðum. En það er nú eins og losa Skrattann úr nótinni að rýna í þessar niðurstöður. Ég sló inn Bingó og þar kom svo mikill aragrúi af upplýsingum sem ég áttaði mig alls kostar ekki á. Mér er það því enn hulin ráðgáta hvernig fólk getur kallað þetta upplýsingahraðbraut. Ég finn bara alls ekki neitt. Smelltu hér til að komast á leitarvél. Vona að klekkurinn virki.